Forseti Íslands var heiðursgestur á afmælishátíð dagsins, sem fór fram í skólanum á Stokkseyri. Stutt ávörp voru haldin, auk skemmti og tónlistaratriða og konurnar í Kvenfélagi Stokkseyrar sáu um veitingar dagsins.Í dag eru 125 nemendur í skólanum og 50 starfsmenn.
Starfið gengur mjög vel þrátt fyrir áföll eins og myglu í skólahúsnæðinu á Eyrarbakka og heimsfaraldur. Skólastjórinn er stoltur af því að vera skólastjóri elsta starfandi barnaskóla landsins.

„Já, þetta er ábyrgðarstarf og staða, sem ég tek mjög alvarlega og það er mér mjög mikið í mun að fólkinu hérna líði vel. Ég er bæði stolt og ofsalega auðmjúk . Við erum í stöðugri skólaþróun og við erum að nýta tæknina í kennslu,“ segir Guðrún Björg Aðalsteinsdóttir, skólastjóri.

Og þú ert með frábæra nemendur og frábært starfsfólk eða hvað?
„Já, það besta, alveg það besta, allir leggja sig fram.“

Forseti Íslands hélt létta og skemmtilega ræðu í tilefni dagsins og endaði á þessum orðum.
„Í lok þessarar ræðu telst mér til að ég hafi flutt um eitt hundrað orð á mínútu. Hæfni náð en ekki viðmiði þrjú er ég hræddur um, en ég lofa að reyna að gera betur næst þegar ég kem og verð með ykkur og tala miklu hraðar og fæ miklu betri einkunn,“ sagði Guðni og uppskar mikinn hlátur.
