Innlent

„Við ætlum að breyta samfélaginu“

Árni Sæberg og Heimir Már Pétursson skrifa
Kristrún Frostadóttir er nýr formaður Samfylkingarinnar.
Kristrún Frostadóttir er nýr formaður Samfylkingarinnar. Vísir/Vilhelm

Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út á landsfundi Samfylkingarinnar í kvöld þegar Kristrún Frostadóttir var lýst nýr formaður Samfylkingarinnar. Hún var ein í framboði en rúmlega 94 prósent fundarmanna greiddu henni atkvæði.

„Við ætlum að breyta samfélaginu. Við þurfum auðvitað að breikka flokkinn til þess að fá massa fólks á bak við okkur. Það er ákall um breytingar, við finnum það. Ég hef líka fundið það á fundum mínum með fólki um allt land að fólk þyrstir í forystu sem er tilbúin að snúa hlutunum aðeins við hérna í samfélaginu. Samfylkingin þarf auðvitað að grípa inn í að verkefni,“ segir Kristrún innt eftir því hvert hún muni fara með Samfylkinguna, í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Hún segir að flokksmenn séu meðvitaðir um það að breytingar þurfi að eiga sér stað innan Samfylkingarinnar til þess að ná fram breytingum í samfélaginu og aukningu á fylgi flokksins. 

„Ég hef talað fyrir því að virkja tengslin við fólkið í landinu. Ég hef líka talað fyrir því að við setjum aðeins meiri fókus á okkar kjarnamál, tala um þessi klassísku velferðarmál sem jafnaðarmenn hafa talað fyrir, samgöngumál, kjaramál almennt. Við þurfum bara að skerpa á boðskapnum. Ég veit það fyrir víst að það er mikið af fólki með jafnaðartaug þarna úti í landinu, við þurfum bara að ná til þess,“ segir Kristrún að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×