„Þau eru eiginlega fullgáfuð. Því það er svo erfitt að halda þeim innan girðingar og annað slíkt. Þau eru svo fljót að finna smugur,“ segir Jóhannes, en hann er meðal viðmælenda í þættinum Um land allt á Stöð 2.
„Til dæmis á haustin, þegar féð kemur heim, þá halda þau oft að þau séu hundar og fara að smala og annað slíkt.
Og eins og áðan, þá brutust þau út. En um leið og þau sáu mig koma þá hlupu þau inn aftur. Þannig að þau vita alveg að þau eru að gera eitthvað sem þau mega ekki. En þetta eru alveg bráðgreindar skepnur.
Og þessi þjóðsaga um að þau séu sóðar, það er náttúrlega algerlega úr lausu lofti gripið. Þetta eru mjög hreinleg dýr,“ segir bóndinn í þættinum Um land allt.
Fljótin eru nyrsta sveit í austanverðum Skagafirði. Þar var áður fjölmenn byggð sauðfjár- og kúabænda með útræði og þorpi í Haganesvík. Núna er lúxushótel langstærsti vinnustaðurinn og sveitin leikvangur efnaðra ferðamanna. Bændur sem eftir eru freista þess á sama tíma að renna fleiri stoðum undir búskap á jörðum sínum.
Þátturinn um Um land allt er á dagskrá Stöðvar 2 klukkan 19:10. Einnig má nálgast hann á streymisveitunni Stöð 2+. Hér má sjá kynningarstiklu þáttarins: