Í tilkynningunni eru veitingastaðirnir ekki nefndir á nafn en leiða má líkur að því að um þá sér að ræða.
Vísir greindi frá því á dögunum að forsvarsmenn staðanna sögðu kolrangt að starfsmenn hefðu unnið tíu til sextán tíma vinnudaga, sex daga vikunnar. Þá ættu fullyrðingar um mögulegt mansal og launaþjófnað ekki við rök að styðjast. Stefna á hendur Matvís væri í undirbúningi.
Matvís, sem fer með málið fyrir hönd starfsfólksins, segist ekki uggandi yfir mögulegri lögsókn.
„.MATVÍS hræðist ekki hótanir um lögsókn en telur þó að þeim peningum sem eytt verður í þá málsókn myndu nýtast betur til þess að greiða fyrrum starfsmönnum veitingastaðanna það sem þau eiga inni. Þannig væri ágreiningurinn einnig afgreiddur. Yfirlýsing atvinnurekendanna úr fjölmiðlum þann 1. nóvember sl. um að vilji þeirra hafi ávallt staðið til þess að standa skil á sínu gagnvart skjólstæðingum MATVÍS er því ekki trúverðug þar sem ágreiningurinn nú snýst einmitt um það að ekki hefur verið gert upp við skjólstæðinga okkar að fullu,“ segir í tilkynningunni sem send var á fjölmiðla nú í morgun.
Þar segir að Matvís muni ekki tjá sig frekar um fyrirhugaða málshöfðun eigenda staðanna.