Handbolti

Íslendingalið Fredericia fékk skell

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Einar Þorsteinn Ólafsson var leikmaður Vals áður en hann hélt út til Danmerkur.
Einar Þorsteinn Ólafsson var leikmaður Vals áður en hann hélt út til Danmerkur. vísir/Hulda Margrét

Íslendingaliðið Fredericia, undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar og með Einar Þorstein Ólafsson innanborðs, mátti þola átta marka tap er liðið heimsótti Skanderborg til Árósa í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld, 33-25.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í upphafi leiks, en þegar fyrri hálfleikur var um það bil hálfnaður tóku heimamenn öll völd á vellinum. Liðið skoraði tíu mörk gegn aðeins þremur mörkum Íslendingaliðsins síðari hluta hálfleiksins og staðan var því 17-10, Skanderborg í vil, þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Gestirnir í Fredericia voru í raun aldrei nálægt því að ógna forystu heimamanna sem náðu mest 11 marka forskoti í leiknum og unnu að lokum átta marka sigur, 33-25.

Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði eitt mark fyrir gestina í kvöld, en liðið situr í sjöunda sæti deildarinnar með 13 stig eftir jafn marga leiki. Skanderborg situr nú sæti neðar með 12 stig.

Þá vann Álaborg, lið Arons Pálmarssonar öruggan sex marka sigur er liðið heimsótti Nordsjælland á sama tíma, 25-31. Aron var ekki með Álaborgarliðinu vegna meiðsla, en Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari liðsins.

Álaborg trónir enn á toppi deildarinnar með 24 stig eftir 13 leiki, einu stigi meira en GOG sem hafði betur gegn Bjerringbro/Silkeborg í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×