Fótbolti

Sleit krossband í fyrsta leik sínum á HM í Katar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lucas Hernandez liggur hér sárþjáður í grasinu í leiknum í gær.
Lucas Hernandez liggur hér sárþjáður í grasinu í leiknum í gær. AP/Christophe Ena

Meiðsladraugurinn eltir Frakka þessi misserin því heimsmeistararnir hafa misst mjög marga leikmenn í meiðsli fyrir þetta HM og nú eru menn farnir að meiðast ill á mótinu sjálfu.

Franski varnarmaðurinn Lucas Hernandez missir ekki aðeins af restinni af heimsmeistaramótinu í Katar heldur líka af restinni af tímabilinu.

Bakvörður Bayern München sleit krossbandið í hægra hné eftir aðeins tæplega tíu mínúta leik í fyrsta leik Frakka á HM 2022. Þetta var staðfest í morgun.

Atvikið gerðist í aðdraganda marks Ástrala sem komust í 1-0 í leiknum strax á níundu mínútu leiksins.

Hernandez er enn einn leikmaðurinn sem dettur út hjá Frökkum fyrir þetta heimsmeistaramóti en nú síðast meiddist Karim Benzema á æfingu rétt fyrir mót.

„Ég finn mikið til með Lucas,“ sagði Didier Deschamps, landsliðsþjálfari Frakka.

„Við erum þarna að missa mikilvægan leikmann. Lucas er stríðsmaður og ég efast ekki um að hann mun gera allt sem hann getur til að koma til baka,“ sagði Deschamps.

„Ég vil fyrir hönd alls hópsins óska honum alls hins besta í endurhæfingunni,“ sagði Deschamps.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×