Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað að hækka meginvexti sína um 0,25 prósentustig í morgun og eru vextirnir þá komnir í sex prósent. Þetta er tíunda vaxtahækkunin á átján mánuðum.

Er þetta til marks um að vaxtahækkanirnar séu ekki að virka?
„Þær eru alla vega eru ekki að virka nægjanlega vel á neyslu fólks. Einkaneysla er að aukast fremur mikið. Við erum að sjá að vaxtahækkanirnar eru að virka á fasteignamarkaðinn en við erum að sjá ansi mikla neyslu,“ segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Neyslan hafi aukist um 13 – 14 prósent á árinu og verðbólga mælist 9,4 prósent. Sameiginlegt markmið allra væri að ná verðbólgunni niður.
„Ef verðbólga er mikil er sama hvað samið er um í kjarasamningum. Það er sama hvað er farið fram á mikla launahækkun. Hún kemur ekki fram í kaupmætti hún kemur bara fram í verðbólgu, síðan í lækkun á gengi krónunnar. Þetta bítur í skottið hvort á öðru,“ segir seðlabankastjóri.

Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins segir þessa vaxtahækkun hafa gríðarleg áhrif og samningafólki hafi verið verulega brugðið. Þegar greint var frá vaxtahækkuninni í morgun hefðu fulltrúar aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins og samtaka verslunarmanna verið á samningafundi með Samtökum atvinnulífsins.
„Við að reyna að finna flöt á því hvernig við getum náð niður verðbólgu. Hvernig við getum stuðlað að lægri vöxtum. Þá kemur Seðlabankinn og grýtir framan í okkur rennblautri tusku,“ segir Vilhjálmur. Minnstu hefði munað að slitnað hefði upp úr viðræðum en aðilar ákveðið að hittast aftur á morgun.
Stilla saman veruleika og væntingar
Seðlabankastjóri minnir hins vegar á að kaupmáttur hafi vaxið hraðar á undanförnum árum en nokkru sinni áður og væri enn mjög mikill. Það kæmi fram í mikilli neysu og halla á viðskiptum við útlönd.
„Það verður að stilla saman veruleika og væntingar. Hvað við getum gert, hvað við getum fengið og þess sem við teljum okkur þurfa. Þetta þarf að stilla saman,“ segir Ásgeir.
Vilhjálmur segir Seðlabankann hafa skorað sjálfsmark með vaxtahækkuninni.
„Við í verkalýðshreyfingunni teljum núna afar brýnt er að koma launahækkunum hratt og vel til fólks. Vegna þeirra gríðarlegu kostnaðarhækkana sem hafa dunið á launafólki, neytendum og heimilum að undanförnu,“ segir Vilhjálmur.
Nú hafi Seðlabankanum tekist að setja viðræður sem voru langt komnar í fullkomið uppnám.
„En þessar vaxtahækkanir gera það að verkum að það þarf að bæta í pakkann. Ekki minka hann heldur bæta í hann. Það er niðurstaðan að Seðlabankinn hefur gert það að verkum að við munum þurfa að fara fram með hærri kröfur en við ella þyrftum,“ segir Vilhjálmur Birgisson.