Ruben Östlund, leikstjóri kvikmyndarinnar Triangle of Sadness, og króatísk-danski leikarinn Zlatko Burić, sem báðir eru tilnefndir á verðlaunaafhendingunni á morgun verða báðir viðstaddir hátíðina í Hörpu. Á meðal kynna er danski leikarinn Nikolaj Coster-Waldau sem þekktastur er fyrir hlutverk sitt í þáttunum Game of Thrones.
„Við eigum það sameiginlegt allir Íslendingar sem hafa gengið inn í Eldborg undanfarna daga að við erum gapandi, einn stór gapandi þjóðflokkur. að horfa á stærðina á sviðinu og því sem er búið að setja hérna upp,“ segir Unnsteinn Manuel Stefánsson, listrænn stjórnandi útsendingar verðlaunanna.
Þannig að þetta er alveg rosalegt sjónarspil?
„Já, þetta er alveg mjög stórt. Ég hugsa að það hafi ekki stærra „show“ verið haldið í Eldborg áður.

Vildu sigla í sterka grínátt
Þrettán hundruð gestum verður boðið í Hörpu á laugardagskvöld og hundrað erlendir blaðamamenn mæta til að gera hátíðinni skil. Unnsteinn segir að búast megi við óvæntum og skemmtilegum uppákomum á athöfninni. Ilmur Kristjánsdóttir og Hugleikur Dagsson verða kynnar.
„Við fundum strax að við vildum sigla í sterka grínátt og tókum upp sketsa og svona. Það átti reyndar kannski að vera óvænt, en nú er það bara komið í fréttir. Þannig að það verður bara skemmtilegt,“ segir Unnsteinn.
Þá hvetur hann Íslendinga til að fjölmenna í bíó.
„Niðri í bíó paradís er verið að sýna fullt af kvikmyndum sem tengjast þessari hátíð og ég hvet fólk til að fara og horfa. Þó það væru ekki nema myndirnar sem tilnefndar eru í síðasta flokknum, mynd ársins.“