Í færslu Þorbjarnar á Facebook segir að þegar búið var að greiða leið fyrir stórtæk moksturstæki Vegagerðarinnar um Grindavíkurveg hafi verið ákveðið að létta á fjöldahjálparmiðstöð sem opnuð hafði verið í Grindavík.
Þá hafi einnig mörg hundruð gestir verið fastir í Bláa lóninu og um þrjátíu bílar verið fastir á Stapanum.
Fólkið var ferjað í bílum sínum í bílalestum í fylgd með moksturs- og björgunartækjum. Í færslunni segir að það hafi gengið ákaflega vel og síðustu hópar hafi komið í hús í morgunsárið. Alls hafi um þrjú hundruð bílar hafi ferðast með bílalestunum.
„Það er ekki hægt að leysa svona uppákomur nema með einstaklega góðu samstarfi allra þeirra sem koma að málinu og það gekk svo sannarlega vel í nótt,“ segir í færslu Þorbjarnar.
Þá er fólki bent á að fykgjast vel með færð vega á safetravel.is eða vegagerdin.is, hyggi það á ferðalög.