- Flugi Icelandair til Tenerife klukkan 08:40 í morgun hefur verið aflýst.
- Flug Neos til Las Palmas klukkan 09 í morgun er enn á áætlun, klukkan 11.
- Flug Play til Tenerife sem var áætlað klukkan 09 í morgun er nú sett á 14:30.
- Icelandair hefur aflýst báðum flugferðum sínum sem fyrirhugaðar voru klukkan 09 í morgun.
Einhverjir Tene-farar bíða því eftir nánari upplýsingum og vonast eflaust til að komast utan. Ferðalangar með Icelandair vita að ekkert verður af brottför hjá þeim í dag.
Í tilkynningu frá Isavia, sem send var út í gærkvöldi, sagði að röskun gæti orðið á flugi til og frá vellinum til morgundagsins. Voru farþegar hvattir til að fylgjast með upplýsingum um flugtíma á vef Isavia eða hjá viðkomandi flugfélögum.

Viðmælandi Vísis sem var á leiðinni í sólina með fjölskyldunni í morgun kynnti sér upplýsingarnar á vefnum í morgun. Flugið var á áætlun svo hann dreif sig út á Reykjanesbraut.
Reyndar komst hann bara áleiðis að álverinu enda var svo til ófært um Reykjanesbrautina. Vegagerðin greip til þess ráðs að láta plóg aka á undan hóp bíla fram og til baka frá höfuðborgarsvæðinu til Reykjanesbrautar.
Um fimmtíu bílar voru fluttir í einu og komst viðmælandi Vísis til flugvallarins í tæka tíð til að ná fluginu í sólina. Nema þá var búið að aflýsa flugferðinni sem var með Icelandair.
Því var ekkert annað en að fara aftur út í bíl og aka sem leið lá, á eftir ruðningstæki Vegagerðarinnar, aftur til borgarinnar. Þangað komst hann svo aftur á ellefta tímnanum.
Ekki voru allir svo heppnir. Um tíuleytið var allri umferð lokað á Reykjanesbraut. Rauði krossinn hefur opnað fjöldahjálparstöð í íþróttahúsinu við Sunnubraut í Reykjanesbæ. Þangað geta allir leitað sem hafa ekki í nein hús að venda eða hafa orðið veðurtepptir.
Uppfært klukkan 12:00
Play hefur nú einnig aflýst flugferð sinni til Tenerife. Neos áætlar enn brottför klukkan 14 samkvæmt vef Isavia.
Ætlaðirðu til Tenerife í morgun og veist ekki í hvorn fótinn þú átt að stíga? Sendu okkur þína sögu á ritstjorn@visir.is eða símanúmer svo við getum heyrt í þér.