Fótbolti

Segir að Phillips hafi komið of þungur heim af HM

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kalvin Phillips hefur ekki beint átt draumabyrjun eftir að hann gekk í raðir Manchester City.
Kalvin Phillips hefur ekki beint átt draumabyrjun eftir að hann gekk í raðir Manchester City. Alex Pantling - The FA/The FA via Getty Images

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Englandsmeistara Manchester City, segir að ástæðan fyrir því að miðjumaðurinn Kalvin Phillips hafi ekki verið í leikmannahópnum þegar liðið mætti Liverpool í enska deildarbikarnum síðastliðinn föstudag hafi verið að leikmaðurinn hafi komið of þungur heim af HM í Katar.

Það kom einhverjum á óvart að sjá að Kalvin Phillips væri ekki í leikmannahópi City gegn Liverpool á föstudaginn. Upphaflega gaf Pep ekki mikla útskýringu á því, nema að leikmaðurinn væri ekki til taks. Hann hefur þó gefið útskýringu núna og segir að Phillips hafi einfaldlega ekki verið í nógu góðu standi eftir HM.

„Hann er ekki meiddur. Hann kom of þungur til baka,“ sagði Pep, en sagðist þó ekki hafa neina útskýringu á því af hverju hann hafi komið of þungur til baka.

„Hann kom ekki til baka í nógu góðu standi fyrir æfingarnar eða til að spila.“

Phillips lék tvo leiki á HM fyrir enska landsliðið þegar hann kom inn á sem varamaður gegn Wales og Senegal. Hann gekk í raðir Manchester City frá Leeds fyrir 45 milljónir punda í sumar, en hefur aðeins komið við sögu í einum leik á tímabilinu. Hans eini leikur á tímabilinu var gegn West Ham í ágúst, en þá kom hann inn á sem varamaður á seinustu mínútu leiksins.

Alls hefur Phillips komið við sögu í fjórum leikjum fyrir City í öllum keppnum og í öll skiptin hefur hann komið inn af varamannabekknum. Seinast þegar hann kom við sögu hjá liðinu var gegn Chelsea í enska deildarbikarnum þann 9. nóvember.

Næsti leikur liðsins er gegn hans gömlu félögum í Leeds næstkomandi miðvikudag. Ekki er vitað hvort Phillips verður kominn í nógu gott líkamlegt stand að mati þjálfarans fyrir þann tíma, en þrátt fyrir vonbrigðatímabil hjá sínu nýja félagi segir Pep að þessi 27 ára miðjumaður sé nauðsynlegur hlekkur í liðinu.

„Þegar hann verður tilbúinn mun hann spila. Við þurfum á honum að halda. Við þurfum virkilega á honum að halda,“ sagði Pep að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×