Innlent

Ofát og hálka varð fólki að falli í gær

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Nóg var um að vera á bráðamóttökunni í gær.
Nóg var um að vera á bráðamóttökunni í gær. Vísir/Vilhelm

Fjöldi fólks leitaði á bráðamóttöku Landspítalans í gær og í nótt vegna hálkumeiðsla. Þá var nokkuð um að fólk leitaði sér aðstoðar vegna ofáts.

„Það komu um hundrað og fimmtíu einstaklingar á braðamóttökuna síðasta sólarhringinn, sem er svipað og á venjulegum degi hjá okkur,“ segir Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á Bráðamóttökunni. 

Kvefpestir herji nú á landann.

„Það er nú áfram þungur faraldur af öndunarfærasýkingum. RS veirur, inflúensa og Covid að valda álagi á Landspítalanum og bráðamóttökunni.“

Greinilegt er að nýfallinn snjórinn hafi gert landsmönnum grikk.

„Það var nokkuð um hálkuslys í gær þar sem snjóaði ofan á ísinn og var nokkkuð lúmsk hálka,“ segir Hjalti Már. 

Hjalti Már, yfirlæknir á bráðamóttökunni.Vísir/Arnar

Nokkrir hafi verið með beinbrot en þó færri en á öðrum erfiðum hálkudögum.

„Þannig mér sýnist að margir hafi notað mannbrodda og farið varlega í hálkunni.“

Þá hafi verið nokkuð um það, eins og fyrri ár, að fólk hafi borðað yfir sig.

„Það er árlegur viðburður í heilbrigðiskerfinu sem við þekkjum, að þeir sem eru veikir fyrir í hjarta fari sér fullgeyst í jólamáltíðinni og fái þá lungnabjúg og öndunarerfiðleika og komi á spítalann út af því,“ segir Hjalti. 

„Það er ágætt að fólk gæti sér hófs í matarátinu og hlusti á líkamann og borði ekki yfir sig.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×