Fótbolti

Nýtir pirringinn yfir að hafa misst af HM til að skora meira

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Það fór í taugarnar á Erling Haaland að þurfa að fylgjast með HM í sjónvarpinu.
Það fór í taugarnar á Erling Haaland að þurfa að fylgjast með HM í sjónvarpinu. Tom Flathers/Manchester City FC via Getty Images

Norski markahrókurinn Erling Braut Haaland segist nýta pirringinn yfir því að hafa þurft að horfa á HM í Katar í sjónvarpinu sem hvata til að skora fleiri mörk í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

Haaland hefur nú skorað 20 mörk í sínum fyrstu 14 deildarleikjum fyrir Englandsmeistara Manchester City og er þar með aðeins þremur mörkum frá því að jafna markahæstu menn frá seinasta tímabili þegar Heung-Min Son og Mohamed Salah skoruðu 23 mörk hvor. 

Framherjinn skoraði tvö mörk í 3-1 sigri gegn Leeds í gærkvöldi og er þar með fljótasti leikmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar til að skora 20 mörk. Eins og áður segir tók það hann aðeins 14 leiki, en Kevin Phillips, sá sem átti metið, gerði það í 21 leik fyrir Sunderland tímabilið 1999-2000.

Það var því líklega áhyggjuefni fyrir önnur lið í deildinni þegar Pep Guardiola, knattspyrnustjóri City, sagði að Haaland væri „ekki enn upp á sitt besta.“

„Ég er búinn að sitja heima og vera svolítið reiður yfir því að ég hafi ekki verið að spila á HM,“ sagði Haaland. 

„Að horfa á aðra leikmenn skora sigurmörk á HM kveikti í mér og pirraði mig aðeins, ásamt því að láta mig vilja gera meira. Ég er hungraðari og tilbúnari en nokkru sinni fyrr.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×