Carlo Ancelotti, þjálfari Real Madrid, var beðinn um að leggja sitt fram til umræðunnar á blaðamannafundi í gær en Real mætir aftur til leiks eftir HM-frí er liðið mætir Real Valladolid í spænsku deildinni í kvöld.
Aðspurður um Messi sagði Ancelotti:
„Ég veit ekki hvort hann sé sá besti í sögunni. Það er ekki sanngjarnt að segja það, vegna þess að hver tíð hefur afar góða leikmenn. Setningin „Messi er sá besti í sögunni“ mun aldrei koma úr mínum munni. Ég hef notið svo margra góðra leikmanna, og fær að þjálfa sigurvegara Gullboltans (f. Ballon d'Or) daglega,“
Karim Benzema leikur undir stjórn Ancelotti en hann hlaut Gullboltann í ár, sem veittur er besta leikmanni heims árlega. Luka Modric er einnig leikmaður Real og hlaut verðlaunin 2018. Fabio Cannavaro, Andriy Shevchenko, Brassarnir Kaká, Ronaldo og Rivaldo auk Portúgalans Cristiano Ronaldo eru á meðal leikmanna sem hafa hlotið verðlaunin sem hafa leikið undir stjórn Ítalans.
Real Madrid er í 2. sæti spænsku deildarinnar, tveimur stigum á eftir toppliði Barcelona, og fer á toppinn með sigri á Valladolid í kvöld.