Viðskipti erlent

Hagnaður Samsung ekki lægri í átta ár

Samúel Karl Ólason skrifar
Stöðuuppfærsla Samsung og væntanlegur samdráttur í hagnaði þykir til marks um sambærilega þróun hjá öðrum alþjóðlegum fyrirtækjum.
Stöðuuppfærsla Samsung og væntanlegur samdráttur í hagnaði þykir til marks um sambærilega þróun hjá öðrum alþjóðlegum fyrirtækjum. EPA/JEON HEON-KYUN

Búist er við því að hagnaður suður kóreska tæknirisans Samsung hafi dregist verulega saman á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Samkvæmt nýtti stöðuuppfærslu frá Samsung er útlit fyrir að hagnaður fyrirtækisins hafi ekki verið lægri í átta ár en hann dróst saman um tvo þriðju á milli ára.

Samkvæmt uppfærslunni sem birt var á vef fyrirtækisins í morgun er áætlað að hagnaðurinn verði um 3,4 milljarðar dala (um fimm hundruð milljarðar króna), en á sama ársfjórðungi 2021 var hann 10,9 milljarðar (Um 1.600 milljarðar króna).

Ársfjórðungsuppgjörið sjálft verður ekki birt fyrr en í lok þessara mánaðar.

Reuters fréttaveitan hefur eftir sérfræðingi að tölvuflöguframleiðsla og símasala Samsung hafi orðið fyrir sérstaklega miklu höggi og að búist sé við frekari samdrætti á þeim ársfjórðungi sem stendur nú yfir.

Dregið hafi úr eftirspurn á þessum sviðum en Samsung sér mörgum öðrum tæknifyrirtækjum um örflögum og skjám í snjalltæki.

Þetta má að miklu leyti rekja til efnahagsaðstæðna í heiminum öllum þar sem vextir hafa víða hækkað og kostnaður aukist. Uppgjörið hjá einu stærsta fyrirtæki heims þykir gefa til kynna að uppgjör annarra fyrirtækja muni sýna fram á svipaðan samdrátt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×