Bæjarstjórn ákvað á fundi sínum í byrjun desember að valið myndi standa milli tveggja tillagna: Sveitarfélagið Stykkishólmur eða Stykkishólmsbær. Endanleg ákvörðun yrði svo tekin á næsta bæjarstjórnarfundi.
Jakob Björgvin Sigríðarson Jakobsson bæjarstjóri segir að næsti fundur hafi þá verið ákveðinn 26. janúar. Þó hafi þurft að boða til aukafundar bæjarstjórnar milli jóla og nýárs til að ræða samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga varðandi fjármögnun þjónustu við fatlað fólk í kjölfarið hækka útsvarsálagningu.

„Bæjarfulltrúar ákváðu að halda sig við fyrri ákvörðun og taka ákvörðun um nafnið í lok janúar, þrátt fyrir þennan aukafund. Þannig að ég geri ráð fyrir því að bæjarfulltrúar noti janúar til þess að ræða þessi mál og taki ákvörðun svo 26. janúar um nafnið, það er velji annað hvort þessara tveggja nafna: Sveitarfélagið Stykkishólmur eða Stykkishólmsbær,“ segir Jakob Björgvin.
Örnefnanefnd skilaði tillögum sínum í haust þar sem umsögn var veitt um átta tillögur að beiðni bæjarstjórnar. Áður hafði bæjarstjórn óskað eftir tillögum frá íbúum og bárust þá 72 tillögur.
Örnefnanefnd mælti með þremur nöfnum á sameinuðu sveitarfélagi: Þórsnesþing, Stykkishólmsbær og Sveitarfélagið Stykkishólmur.
Umsögn örnefnanefndar var lögð fyrir bæjarstjórn á fundi 8. desember síðastliðinn þar sem forseti bæjarstjórnar gerði grein fyrir því að bæjarfulltrúar væru sammála því að tvö nöfn kæmu til greina: Sveitarfélagið Stykkishólmur eða Stykkishólmsbær. Málinu var svo vísað til næsta bæjarstjórnarfundar, 26. janúar.