Halldóra segir að ástæðurnar sem félagsmenn Eflingar gefi upp séu alls konar.
„Þeir segjast flestir ekki fylgja formanninum [Sólveigu Önnu Jónsdóttur] og framkomu hans við starfsmenn og svo vill fólk bara ekki fara í verkfall.“
„Þarf ég að vera í þessu félagi?“
Samninganefnd Eflingar ákvað á þriðjudaginn að slíta viðræðum sínum við Samtök atvinnulífsins og hefja undirbúning verkfallsaðgerða. Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði þá að himinn og haf væri á milli nýjasta tilboðs Eflingar og þess sem samið hafði verið um við mikinn meirihluta fólks á almennum vinnumarkaði; það er SGS, VR og iðnaðarmenn.
„Félagsmenn Eflingar sem eru að hafa samband við okkur vilja bara fá kjarasamning. Óttast að missa afturvirkni samninganna og fleira. Það var afgerandi niðurstaða í atkvæðagreiðslunni hjá okkur hinum – 85 til 86 prósent – um þann kjarasamning sem náðist.
Það eru líka fleiri stéttarfélög að lenda í þessu núna, að fá þessi símtöl frá félagsmönnum Eflingar. Við erum með ákveðið samkomulag innan ASÍ um félagssvæðin og maður er að reyna að halda því. En það er erfitt þegar svona stórir hópar innan eins félags eru svona óánægðir. Spyrja: „Þarf ég að vera í þessu félagi?“ En í vinnudeilum er erfitt að skipta um félag. Þetta er snúin staða og erfið. Maður er hálfmáttlaus í þessari stöðu,“ segir Halldóra.
Erfið staða
Halldóra segist hafa heyrt í fjölda leiðtoga verkalýðsfélaga innan sama svæðis og Efling er. Hún segir að enn fleiri símtöl frá félagsmönnum Eflingar hafi borist þeim með sambærilegum fyrirspurnum.
Halldóra segir Eflingu vera í mjög erfiðri stöðu og sé einangruð. „Manni sýnist bæði leiðinlegt að þau hafi ekki náð að semja með okkur hinum. Og mér finnst sérstakt að heyra í félagsmönnum Eflingar hvað þeir eru óánægðir. Mér þykir það leitt. En ég set ekki út á kjarabaráttu stéttarfélaga almennt séð. Það er hvert stéttarfélag með sinn samningsrétt og hefur leyfi til að fara fram eins og þau vilja. En að útiloka fólk úr samninganefnd og velja í samninganefnd er náttúrulega mjög skrýtið og sérstakt.“