Ísland keppir við Svíþjóð klukkan 19:30 á föstudag á HM í handbolta. Eftir að tímasetning leiksins varð ljós var tekin ákvörðun um að færa beinu útsendinguna frá Idol sviðinu til 21:00.
„Það er ljóst að leikurinn milli Íslands og Svíþjóðar er gríðarlega mikilvægur og stór hluti þjóðarinnar vill fylgjast með strákunum. Að sama skapi er Idolið með gríðarlegt áhorf og því hefði það verið galið að stilla þessum viðburðum upp á sama tíma,“ segir Þórhallur Gunnarsson framkvæmdastjóri miðla SÝN um þessa breytingu á dagskrá Stöðvar 2 á föstudag.
„Með því að seinka Idolinu til kl. 21.00 náum við að skapa stórkostlegt sjónvarpskvöld með stórleik í handbolta og Idolinu í beinu framhaldi. Þetta verður varla betra.“
Leikur Íslands við Evrópumeistara Svíþjóðar, á þeirra eigin heimavelli, næsta föstudagskvöld virðist fyrir fram vera leikurinn sem ræður því hvort að Ísland komist í 8-liða úrslit á HM í handbolta.
Sjö keppendur eru eftir í Idol keppninni og syngja þau fyrir dómnefndina og áhorfendur í sal og heima í stofu í beinni útsendingu á föstudagskvöld. Símakosning mun segja til um það hvaða keppendur fara heim næstu föstudagskvöld og hvaða keppandi stendur uppi sem Idol stjarna Íslands.

Keppendurnir sem eiga enn möguleika á að vinna Idol eru Saga Matthildur, Guðjón Smári, Þórhildur Helga, Ninja, Kjalar, Símon Grétar og Bía.
Alla umfjöllun okkar um Idol má finna HÉR á Vísi.