Björn Snorri Rosdahl, íbúi á Holtsgötu varaði nágranna sína við hættunni af fallandi klaka í Facebook-hópnum Vesturbærinn í gær.
„Þessir litlu ísjakar voru að renna af þakinu hérna á Holtsgötunni við Framnesveginn og brjóta framrúðuna á Suzuki-inum,“ segir Björn Snorri og deilir mynd sem sýnir mikinn klaka á gangstétt og við bíla sem lagt hafði verið á götunni.
Hann hvetur nágranna sína til þess að fara varlega við húsið og hús almennt. „Ef það hefði einhver orðið fyrir þessu þarf varla að spyrja að leikslokum,“ segir Björn Snorri.
Í athugasemd við færsluna segir Björn Snorri að húsið sem um ræðir sé fimm hæða og að aðgengi að þaki þess sé slæmt. Því hafi ekki verið unnt að hreinsa snjó og grýlukerti af þaki þess, þrátt fyrir tilraunir íbúa á fimmtu hæð. Til þess hefði þurft kranabíl.
Nokkuð hefur borið á því í kuldatíðinni undanfarið, og sérstaklega í asahlákunni í gær, að klaki og snjór falli af húsþökum. Því hafa húseigendur verið hvattir til að hreinsa snjó og klaka af þökum húsa sinna.