„Farþegar verða látnir vita um leið og nýjar upplýsingar liggja fyrir. Allir farþegar verða endurbókaðir sjálfkrafa og ný ferðaáætlun verður send með tölvupósti,“ segir í tilkynningu frá Icelandair. Gert er ráð fyrir því að raskanirnar hafi áhrif á um tvö þúsund manns.
Fram kemur að vegna fjölda flugferða sem verða fyrir áhrifum gæti tekið lengri tíma að endurbóka farþega. Ekki sé nauðsynlegt að hafa beint samband við Icelandair nema valkosturinn henti ekki ferðaáætlunum.
Hins vegar er gert ráð fyrir því að síðdegisflug til Norður-Ameríku, London og Kaupmannahafnar verði á áætlun.
Gular viðvaranir taka gildi í dag og á morgun á mestöllu landinu. Varað er við suðvestan stormi og éljum víða um land ásamt lélegu skyggni. Reiknað er með 15 til 23 metrum á sekúndu.