Inter og Atalanta sitja í öðru og fjórða sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar þar sem aðeins tvö stig skilja á milli þeirra og því var ljóst að um hörkuleik yrði að ræða.
Mörkin létu þó standa á sér og enn var markalaust þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.
Eina mark leiksins kom svo loksins eftir tæplega klukkutíma leik þegar Matteo Darmian kom boltanum í netið eftir stoðsendingu frá Lautaro Martinez og niðurstaðan því 1-0 sigur Inter.
Inter er því á leið í undanúrslit á kostnað Atalanta þar sem liðið mætir annað hvort Juventus eða Lazio.