Í dag var greint frá því að Samtök atvinnulífsins teldu ólöglegt að boða til vinnustöðvunar eða hefja verkfallsaðgerðir áður en að minnsta kosti annar deiluaðila hafi fellt miðlunartillögu frá ríkissáttasemjara. Mál samtakanna gegn Eflingu var þingfest hjá Félagsdómi í dag. Samkvæmt stefnunni vilja samtökin fá úr því skorið hvort verkfallsboðun Eflingar, sem samþykkt var í gærkvöldi, sé lögmæt eða ekki.
Lára V. Júlíusdóttir, sérfræðingur í vinnurétti, var til viðtals í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Þar sagðist hún telja að miðlunartillaga ríkissáttasemjara, sem felur í sér að félagsmenn Eflingar og aðildarfélög SA muni greiða atkvæði um sams konar samning og gerður var við Starfsgreinasambandið fyrir áramót, standist skoðun.
Þá benti hún á að Efling hefði ekki viljað afhenda ríkissáttasemjara félagatal sitt svo hægt væri að greiða atkvæði um miðlunartillöguna, á sama tíma og boðað hefði verið til mögulegrar vinnustöðvunar hjá félögum í Eflingu.
„Vegna ómöguleikans er ekki hægt að bera hana undir atkvæði og þá er spurning hvort hægt er að hefja verkfallsaðgerðir á þeim tíma. Þetta er eitthvað sem Félagsdómur fer núna að fjalla um,“ sagði Lára.
Hún sagðist ekki vilja segja með afgerandi hætti til um hvort vinnustöðvunin teldist lögleg.
„Mér finnst hins vegar sennilegra að Félagsdómur líti svo á að þetta sé ólögmæt vinnustöðvun, sem búið er að boða, út frá þessu.“
Telur miðlunartillöguna standast
Lára ræddi einnig um stjórnsýslukæru Eflingar til félagsmálaráðuneytisins vegna miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Málsástæður kærunnar eru þær að ekki hafi verið haft samráð við Eflingu við gerð hennar, sem og skortur á réttmæti, meðalhófu og janfræði.
„Mér sýnist hafa verið haft fullt samráð um framlagningu þessarar miðlunartillögu. Allavega áttu þau löng samtöl þarna, sama dag og miðlunartillagan var boðuð, og ákvæði stjórnsýsluréttarins geta ekki náð til miðlunartillögu sem slíkrar. Þetta er tillaga, ekki ákvörðun sem búið er að taka. Ríkissáttasemjari hefur fullar heimildir til að leggja fram tillögu, og lögin gera bara ráð fyrir því að þegar hún hefur verið lögð fram fari fram atkvæðagreiðsla um hana.“