Fótbolti

Newcastle mistókst að endurheimta þriðja sætið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Newcastle og West Ham skiptu sigunum á milli sín í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.
Newcastle og West Ham skiptu sigunum á milli sín í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Richard Sellers/Getty Images

Newcastle og West Ham skiptu stigunum á milli sín er liðin gerðu 1-1 jafntefli í seinasta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Segja má að leikurinn hafi byrjað af miklum krafti því strax á fyrstu mínútu leiksins var Joe Willock búinn að koma boltanum í netið fyrir heimamenn í Newcastle. Eftir stutta skoðun myndbandsdómara kom þó í ljós að boltinn hafði farið út af vellinum í aðdraganda marksins og það fékk því ekki að standa.

Aðeins 97 sekúndum eftir að Joe Willock kom boltanum í netið fyrir Newcastle gerði Callum Wilson slíkt hið sama fyrir liðið eftir stoðsendingu frá Sean Longstaff. Í þetta skipti sá myndbandsdómarinn ekkert athugavert við markið og staðan því orðin 1-0, Newcastle í vil.

Eftir þessa fjörugu byrjun róaðist leikurinn, en Lucas Paqueta jafnaði metin fyrir gestina á 37. mínútu og staðan var því 1-1 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Ekki tókst liðunum að bæta við mörkum í síðari hálfleik og niðurstaðan varð því 1-1 jafntefli. Newcastle situr nú í fjórða sæti deildarinnar með 40 stig eftir 21 leik, tveimur stigum á eftir Manchester United sem vann sigur gegn Crystal Palace fyrr í dag, en sigur hefði komið Newcastle aftur upp í þriðja sæti deildarinnar. 

West Ham situr hins vegar í 16. sæti með 19 stig, einu stigi fyrir ofan fallsvæðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×