Könnun Maskínu var framkvæmd fyrir Evrópuhreyfinguna í febrúar og fagna samtökin auknum áhuga landsmanna á Evrópusambandinu.
Í könnuninni kemur fram að 40,8% aðspurðra hafi verið hlynntir því að Ísland gengi í Evrópusambandið en 35,9% andvíg. Sé einungis horft til þeirra sem tóku afstöðu merki það að 53,3% Íslendinga séu hlynnt inngöngu í sambandið.

Jón Steindór Valdimarsson formaður Evrópuhreyfingarinnar segir að stuðningur við Evrópusambandsaðild hafi vaxið jafnt og þétt að undanförnu.
„Þetta er í fyrsta sinn frá því mælingar Maskínu hófust, árið 2011, sem við sjáum að stuðningur við aðild er meiri en andstaðan […] Við höfum líka lært mikið af stríðinu í Úkraínu og áhrifum Brexit sem hafa reynst Bretum þungt í skauti. Sveiflur í gengi krónunnar, himinháir vextir og verðbólga hafa örugglega sín áhrif líka. Þá sjáum við að stuðningur við ESB er minna flokksbundinn en áður, og innan allra fylkinga vex áhugi á aukinni Evrópusamvinnu,“ segir Jón Steindór í tilkynningu.

Önnur könnun á vegum Maskínu var gerð í desember þar sem spurt var um afstöðu fólks gagnvart því að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Tæpur helmingur, eða 48%, var hlynntur því að ráðist yrði í atkvæðagreiðslu. Ef aðeins er horft til þeirra sem tóku afstöðu voru 66% hlynntir þjóðaratkvæðagreiðslu.
„Það er skýr stefna hjá okkur í Evrópuhreyfingunni að halda beri þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Ísland eigi að taka aftur upp aðildarviðræður við ESB. Með skýru umboði er hægt að ganga til samninga og sjá síðan svart á hvítu hvað stendur til boða. Að því loknu yrði fullkláraður samningur borinn fyrir þjóðina sem gæti þá kosið um aðild á upplýstan hátt,“ segir í tilkynningu Evrópuhreyfingarinnar.
