Samhliða því vann Sigurður talsvert sjálfstætt með íslenskum listamönnum úr öllum áttum - en átti þann draum að komast á stóra sviðið í New York. Draumurinn rættist; fyrst vann Siggi fyrir alþjóðlegt fyrirtæki í New York frá Íslandi og svo flutti hann að lokum út fyrir nokkrum árum. Reynslan af fjarvinnu gerði hann að talsmanni þess að breyta klukkunni.

Nú býr Sigurður í New York og talar fyrir því í samtali við Ísland í dag, að klukkan á Íslandi sé færð í átt til bandarísks tíma. Ísland í dag rak augun í tíst frá hönnuðinum þar sem hann lýsti því að seinkun klukkunnar um tvo tíma myndi skipta sköpum fyrir menn í hans stöðu - sem vilja hafa þann kost að vinna á Íslandi í fjarvinnu fyrir bandarískt fyrirtæki.
Stofan hannar fyrir M&M, Burger King og Budweiser
Siggi vinnur hjá enskri alþjóðlegri hönnunarstofu, Jones Knowles Ritchie, sem er með skrifstofur í Bandaríkjunum. Stofan er umsvifamikil í vörumerkjahönnun fyrir fyrirtæki sem síðan framleiða umbúðir fyrir neysluvörur. Þar eru viðskiptavinirnir engir aðrir en Heinz, Burger King, M&M og Budweiser.
Sigurður kveðst ekki vita hve lengi hann endist sem New York-búi. Þá væri óskandi að geta unnið áfram hjá erlendum fyrirtækjum að heiman frá Íslandi - sem væri einkar heppilegt ef klukkunni á Íslandi væri seinkað um tvo tíma - þá væri aðeins þriggja tíma munur á New York og Reykjavík.

„Ég held að þetta sé svolítið breyttur heimur núna. Þetta var ekkert sem fólk var að tala um fyrir Covid-19, þetta er bara eitthvað sem gerðist núna í Covid, að fólk er að vinna miklu meira að heiman sérstaklega hérna í Bandaríkjunum.
Það er eitthvað sem ég held að Ísland kveikti ekki beint á. Af því að samkomubannið og allt það var stutt á Íslandi miðað við Bandaríkin. Það komst aldrei á þessi fílingur að fólk vandist því að vinna heima hjá sér og fattaði hvað það er næs,“ segir Sigurður.
Fjöldi fólks vinni nú í fjarvinnu þótt fyrirtækið sé í næsta nágrenni. Sjálfur sparar Sigurður sér tíma í umferðinni með því að vinna heima flesta daga vikunnar. Viðtalið í heild sinni má sjá í innslaginu hér efst, en það hefst á tuttugustu og fyrstu mínútu innslagsins.