Handbolti

Gísli Þor­geir valinn upp­á­hald þýska hand­boltans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson átti mjög gott ár 2022 og heillaði handboltaáhugafólk upp úr skónum.
Gísli Þorgeir Kristjánsson átti mjög gott ár 2022 og heillaði handboltaáhugafólk upp úr skónum. Getty/Eroll Popova

Magdeburg fékk þrjú stór verðlaun á uppgjörshátíð þýska handboltans í gær þar sem íslenski landsliðsmaðurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson var einn af þeim sem fengu verðlaun.

Gísli Þorgeir var kosinn uppáhaldsleikmaður áhorfenda á árinu 2022, „Publikumsliebling des Jahres“, en Magdeburg var líka kosið lið ársins og þjálfarinn Bennet Wiegert, besti þjálfari ársins.

Gísli átti frábært ár með þýsku meisturunum og átti mikinn þátt í því að liðið vann bæði deildina og heimsmeistaratitil félagsliða.

Þýsku handboltaverðlaunin voru sett á laggirnar í fyrra og voru því veitt annað árið í röð. Verðlaunin voru búin til af handboltamiðlunum handball-world og handboltatímaritinu Bock auf Handball.

Alls voru greidd yfir tvö hundruð þúsund atkvæði í kosningunni sem stóð frá 1. til 23. janúar síðastliðinn.

Gísli og félagar hans tóku við verðlaunabikurum sínum í gær eins og Magdeburg sýndi frá á miðlum sínum.

Meðal annarra verðlaun þá var Stefan Kretzschmar valinn áhrifavaldur ársins og dóttir hans Lucie-Marie Kretzschmar var kosin strandhandboltaleikmaður ársins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×