Enski boltinn

„Mikilvægt að halda í gömlu karlana líka“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Jóhann Berg hefur fundið sig vel, líkt og allt Burnley-liðið, á leiktíðinni. Hann var verðlaunaður með nýjum samningi á dögunum.
Jóhann Berg hefur fundið sig vel, líkt og allt Burnley-liðið, á leiktíðinni. Hann var verðlaunaður með nýjum samningi á dögunum. Getty

Jóhann Berg Guðmundsson mun að öllum líkindum spila í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð en lið hans Burnley er langefst í ensku B-deildinni. Hann segir það hafa verið mikinn heiður að skrifa undir nýjan samning við félagið á dögunum.

Burnley er með 73 stig á toppi Championship-deildarinnar, tólf stigum fyrir ofan næsta lið. Félagið féll úr ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili En Vincent Kompany hefur gert frábæra hluti með liðið frá því að hann tók við stjórnataumunum á Turf Moor í sumar.

„Þetta hefur auðvitað gengið ótrúlega vel, frábært hvernig þetta hefur gengið og að vera á toppnum er frábært,“ segir Jóhann Berg.

„Það er ótrúlegt að vera með þetta forskot í þessari deild. Þetta gríðarlega erfið deild og sérstaklega þessir síðustu tveir útileikir núna gegn Luton og Millwall í gær. Þetta eru erfiðir staðir að fara á og ná í stig en við sýndum að við getum unnið leiki á marga vegu og sótt punkta á erfiðum útivöllum,“

„Það er auðvitað frábært hvernig við höfum spilað allt tímabilið og sýnt það að við getum sigrað á marga vegu sem er mikilvægt í þessari deild,“ segir Jóhann.

Viðurkenning að fá nýjan samning

Jóhann Berg skrifaði undir nýjan samning við félagið í janúar og verður hjá Burnley út næsta tímabil.

„Það er mikil viðurkenning fyrir mig að hann [Vincent Kompany] vill halda mér og auðvitað líka markmiðið að fara upp í úrvalsdeildina og við á góðri leið að fara þangað,“

„Ég er með ágætis reynslu þar og við þurfum líka að halda í reynslumikla menn í þessari deild því það eru ekki margir sem við keyptum sem hafa spilað á Englandi þannig að það er auðvitað mikilvægt að halda í gömlu karlana líka,“ segir Jóhann Berg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×