Hótanirnar voru tilkynntar til lögreglu um klukkan tíu í morgun. Þá hafði starfsfólk í ráðhúsinu í Reykjanesbæ þegar tekið ákvörðun um að rýma húsið.
Sölvi Rafn Rafnsson, aðalvarðstjóri hjá Lögreglunni á Suðurnesjum, segir í samtali við fréttastofu að aldrei hafi staðið til að rýma nein hús. Það hafi verið ákvörðun sem tekin var í ráðhúsinu sjálfu þegar hótunin barst og áður en hótunin var tilkynnt lögreglu. Á öðrum stöðum hafi ekki verið rýmt.
„Þetta var stuttur og einfaldur tölvupóstur sem við metum mjög ótrúverðugan,“ segir Sölvi Rafn.
Í tölvupósti til foreldra á leikskólanum Akri segir að í samráði við lögreglu hafi ekki verið talin ástæða til að rýma leikskólann. Leikskólinn sé í góðum samskiptum við lögreglu sem leiðbeini starfsfólki leikskólans í málinu. Þá var sprengjuhótun sömuleiðis send á leikskólann Holt í Innri-Njarðvík.
Sambærileg hótun var send Hjallastefnuleikskólanum Völlum í tölvupósti samkvæmt tölvupósti sem foreldrar barna þar fengu frá stjórnendum hans.
Sölvi Rafn segir í höndum rannsóknardeildar að reyna að rekja póstinn til að komast að því hver standi í því að vekja ótta meðal íbúa í Reykjanesbæ. Þótt hótunin sé metin hættulaus þá sé málið litið alvarlegum augum.
Mikilvægt sé að tilkynna lögreglu um öll mál í þessum dúr.
Fréttin hefur verið uppfærð.