Guðmundur Guðmundsson hefur verið mikið í fréttum í vikunni eftir að HSÍ gaf það út að hann myndi hætta sem landsliðsþjálfari íslenska landsliðsins.
Guðmundur er hins vegar enn þjálfari Frederecia og liðið átti í dag leik gegn Mors-Thy í dönsku úrvalsdeildinni.
Sá leikur varð aldrei neitt sérstaklega spennandi. Frederecia náði góðri forystu í fyrri hálfleik og leiddi að honum loknum með níu mörkum, staðan 21-12 og Guðmundur eflaust nokkuð ánægður með sína menn.
Í síðari hálfleik snerist málið aðeins um hversu stór sigur heimamanna yrði. Munurinn varð ellefu mörk að lokum eftir að Frederecia hafði mest náð fjórtán marka forskoti.
Lokatölur 36-25 og Frederecia er nú í sjöunda sæti deildarinnar.
Einar Þorsteinn Ólafsson var í leikmannahópi Fredericia í dag og kom lítið við sögu og komst ekki á blað.