Fótbolti

Forsetinn sendi þjálfarann í leyfi og tók sjálfur við

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fabio Celestini er kominn í óumbeðið leyfi frá störfum.
Fabio Celestini er kominn í óumbeðið leyfi frá störfum. getty/Marcio Machado

Illa hefur gengið hjá svissneska úrvalsdeildarliðinu Sion að undanförnu og forseti þess hefur ákveðið að grípa í taumana.

Forsetinn, Christian Constantin, hefur sett þjálfara liðsins, Fabio Celestini, í viku leyfi. Og hann leitaði ekki langt yfir skammt að manni til að taka við til bráðabirgða; nefnilega hann sjálfan.

Constantin stýrir því Sion í næstu tveimur leikjum liðsins sem eru báðir gegn Lugano, annar í svissnesku úrvalsdeildinni og hinn í svissnesku bikarkeppninni.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Sion sendir þjálfara í leyfi. Félagið gerði það einnig 2018. Maurizio Jacobacci var þá settur til hliðar. Hann sneri hins vegar aldrei aftur til starfa. Það er því spurning hver örlög Celestini verða.

Celestini var ráðinn þjálfari Sion í nóvember. Hann hefur stýrt liðinu í sex leikjum; fjórir hafa tapast og tveir endað með jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×