Unnar Örn Ólafsson formaður FFR, Félags flugmálastarfsmanna ríkisins, lýsir vonbrigðum sínum með samningafund með samninganefnd Samtaka atvinnulífsins í gær. Þar hafi ekkert miðað áfram. Hann segir boðað yfirvinnubann sem hefst klukkan fjögur á morgun geta haft töluverð áhrif á Keflavíkurflugvelli.

„Flæði flugvéla og farþega og farþega um völlinn. Það hægist verulega á. Þetta getur farið að hafa áhrif á hvort flug er að fara á réttum tíma eða ekki,“ segir Unnar Örn. Með öðrum orðum það gætu orðið seinkanir á flugi og fólk gæti þurft að mæta fyrr en ella í flug vegna hægari þjónustu.
Um fjögur hundruð félagsmenn FFR koma víða við sögu í starfsemi flugvalla landsins. Ekki hvað síst á Keflavíkurflugvelli.
„Þetta er á sjötta tug starfsheita hjá okkur. Þetta er flugverndin, flugvallarþjónustan sem sér um snjóhreinsun og þess háttar ásamt slökkviþáttinn. Þetta eru fluggagnafræðingar, AFIS fólkið okkar úti á landi sem er með flugupplýsingagjöf fyrir flugvélar. Okkar fólk er vítt og breitt í gegnum allt fyrirtækið,“ segir formaður FFR.
Boðað hefur verið til næsta samningafundar með SA fyrir hönd Ísavia á morgun. Unnar Örn segir félagið ekki vera að krefjast meiri launahækkana en samið hafi verið um við aðra. Ef yfirvinnubannið þrýsti ekki á um samninga verði félagið að huga að öðrum og harðari aðgerðum.

„Það er ekki til að einfalda hlutina. Ég trúi ekki öðru, það ber það lítið í milli, að það skuli ekki vera hægt að klára þetta. Í staðinn fyrir að setja hlutina í svona mikið uppnám. Það er ótrúlegt,“ segir Unnar Örn Ólafsson.

Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi Ísavia segir félagið binda miklar vonir við samningaviðræður skili árangri þannig að báðir aðilar fari sáttir frá borði. Næsti fundur í deilunni verði á morgun.
„Við höfum á síðustu dögum verið að fara yfir möguleg áhrif yfirvinnubanns á okkar starfsemi og höldum því áfram. Tengt þeirri yfirferð höfum við fengið samþykktar undanþágubeiðnir frá FFR fyrir þjónustu á flugvöllum og í flugleiðsögu vegna sjúkraflugs, leitar- og björgunarflugs, vegna breytinga á áfangastað loftfars, sem geta orðið vegna bilana, óvæntra lokana flugvalla, óveðurs eða veikinda um borð, og vegna virkjana neyðaráætlana eins og flugslysaáætlana eða áætlana vegna eldgosa,“ segir Guðjón.
Almennt séð muni yfirvinnubann hins vegar koma í veg fyrir að hægt verði að fá félagsfólk FFR sem starfi hjá Isavia og dótturfélögum til yfirvinnu. Til dæmis ef komi til veikinda eða vegna álags í rekstri sem gæti skapast vegna óveðurs.