Rúm vika er síðan Alþýðusamband Íslands stefndi SA fyrir hönd Eflingar til að fá verkbann gegn Eflingarfólki ógilt enda taldi ASÍ að það hefði verið boðað með ólögmætum hætti. Verkbannið kom þó aldrei til framkvæmda þar sem því og öllum verkföllum var frestað þann fyrsta mars. Kristján Þórður Snæbjarnarson forseti ASÍ hefði viljað sjá aðra niðurstöðu í dag.
„Það eru svo sem ákveðin vonbrigði að þetta hafi farið svona þar sem að við töldum að það væri atriði þarna sem væri ekki í samræmi við lögin en þetta er hins vegar bara niðurstaða félagsdóms og við unum henni að sjálfsögðu.“
Kristján segir dóminn geta haft nokkra þýðingu.
„Það liggur bara skýrar fyrir hvernig á að framkvæma atkvæðagreiðslur og framkvæmd um boðun verkbanna og verkfalla væntanlega.“
„Þetta auðvitað skýrir svolítið þessa stöðu. Hvað þarf til og er auðvitað ákveðin leiðbeining inn í framtíðina og væntanlega fyrir okkur. Við eigum eftir að meta og renna dýpra yfir dóminn auðvitað og sjá hvaða áhrif þetta getur haft og við þurfum auðvitað að sjá hvernig það er og sjá hvernig við getum nýtt okkur þetta,“ segir Kristján Þórður.
Dómurinn alveg skýr
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka Atvinnulífsins, segir dóm Félagsdóm vera skýran.
Annars vegar hvað það varðar að Samtökum atvinnulífsins er heimilt að boða verkbann eins og kveðið er á um í vinnulöggjöfinni og dómurinn sé mjög afdráttarlaus hvað það áhrærir.
Hins vegar varðandi það að atkvæðagreiðsla meðal aðildarfyrirtæki SA um verkbannsboðunina hafi verið lögmæt og rétt framkvæmd.
„Þannig að ég myndi segja að dómurinn hafi verið algjört ippon fyrir Samtök atvinnulífsins,“ segir Halldór Benjamín.
Gerir ráð fyrir að aðildarfyrirtæki samþykki miðlunartillögu
Líkt og fjallað hefur verið ítarlega um er miðlunartillaga setts ríkissáttasemjara í kjaradeilu SA og Eflingar í atkvæðagreiðslu hjá félagsmönnum samningsaðila. Atkvæðagreiðslunni lýkur á miðvikudagsmorgun.
„Ég geri ráð fyrir því að aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins muni ekki liggja á liði sínu og taka þátt í þessari atkvæðagreiðslu og greiða miðlunartillögunni atkvæði. Ég á svona frekar von á því að hún verði samþykkt frekar en hitt,“ segir Halldór Benjamín um atkvæðagreiðsluna.