Á vef Veðurstofunnar segir að það verði frost um allt land í dag, þrjú til tíu stig, og gæti orðið hörkufrost um helgina ansi víða.
Fram kemur að það hvessi með morgninum og verði norðan og norðaustan tíu til átján metrar á sekúndu eftir hádegi, hvassast suðaustanlands og á Vestfjörðum.
„Éljagangur um landið norðan og austanvert, en annars úrkomulítið. Dregur smám saman úr vindi og úrkomu á morgun og léttir víða til.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag: Norðaustan 5-13 m/s og víða bjartviðri, en dálítil él á Norður- og Austurlandi. Frost 1 til 10 stig, minnst syðst.
Á fimmtudag: Norðlæg átt, 5-13 m/s og éljagangur norðan- og austanlands, en annars úrkomulítið. Hiti breytist lítið.
Á föstudag, laugardag og sunnudag: Áframhaldandi norðlægar áttir með éljum, en lengst af úrkomulaust syðra. Herðir á frosti.
Á mánudag: Útlit fyrir norðaustanátt með snjókomu eða éljum, en úrkomulítið suðvestantil. Minnkandi frost.