Fótbolti

„Við keyptum aldrei dómara“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joan Laporta með stuðningsmanni Barcelona fyrir leik á móti Valencia.
Joan Laporta með stuðningsmanni Barcelona fyrir leik á móti Valencia. Getty/Joan Valls

Joan Laporta, forseti Barcelona, segir ekkert til í þeim fréttum að félagið hafi keypt dómara eða reynt að hafa áhrif á þá.

Laporta þurfti að svara fyrir þær fréttir um að Barcelona hafi borgað stórar upphæði til fyrirtækis Jose Maria Enriquez Negreira, fyrrum varaforseta dómaranefndarinnar.

Barcelona borgaði umræddu fyrirtæki í kringum sjö milljónir evra á árunum 2001 til 2018 þar af voru greiddar 1,4 milljónir evra frá 2016 til 2018.

Upplýsingar um þessar greiðslur komu fram í dagsljósið eftir að skatturinn fór að kanna fjármál þessa fyrrverandi varaforseta dómaranefndarinnar.

Laporta heldur því fram að greiðslurnar hafi verið vegna tækniráðgjafar um dómgæslu og ítrekaði það að Barcelona hafi ekki verið að borga fyrir neitt annað.

„Við munum halda fréttamannafund um þetta mál fljótlega. Við keyptum aldrei dómara eða reyndum að hafa áhrif á þá. Það var aldrei markmið okkar svo að það sé á hreinu. Staðreyndirnar eru mótsögn við þær sögu sem menn eru að reyna að segja í þessu máli,“ sagði Joan Laporta á athöfn í gær sem ESPN segir frá.

Laporta sagði einnig að hann stefni á það að endurnýja samninginn við þjálfarann Xavi Hernandez en neitaði aftur að tjá sig um hvort Lionel Messi gæti snúið aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×