Ferlið við að koma á annarri flutningsleið raforku á Suðurnesin hefur verið í gangi í um tvo áratugi. Það hefur verið langt og strembið og hefur strandað á afstöðu Voga til línunnar. Öll hin sveitarfélögin sem koma að málinu, Reykjanesbær, Grindavík og Hafnarfjörður hafa þegar veitt Landsneti framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2.
Gjörbreyttar forsendur
Gunnar Axel Axelsson, bæjarstjóri Voga, segir forsendur fyrir lagningu línunnar hafa gjörbreyst í kjölfar eldsumbrotahrinu á Reykjanesi.
„Það eru afdráttarlausar ábendingar frá jarðvísindamönnum að það sé ekki skynsamlegt, með tilliti til afhendingar og öryggis raforku, að leggja aðra línu á sömu lagnaleið og sú eldri. Enda komi til eldsumbrota er ljóst að ekki bara önnur línan fari heldur mun hin hljóta sömu örlög,“ segir Gunnar Axel í samtali við Vísi.
Gunnar Axel átti fund með Sigurði Inga Jóhannssyni innviðaráðherra í dag þar sem Suðurnesjalína 2 var til umræðu. Gunnar Axel segir ástæðu fundarins hafa veirð sú að ráðherra fengi fyrrgreindar upplýsingar vísindamanna milliliðalaust frá sveitarfélaginu.
Ekki hlustað á ábendingar vísindamanna
„Í rauninni var engin niðurstaða á þessum fundi. Hann [Sigurður Ingi] er auðvitað búinn að gefa það út að málið sé ekki á hans borði.

Málefni Landsnets eru á borði umhverfisráðuneytis en Gunnar Axel segir að í ljósi frumvarps Sigurðar Inga um breytingar á raforkuflutningi sé málefnið á borði beggja ráðherra.
Hann segist þó ekki bjartsýnn á að hlustað verði á sjónarmið sveitarfélagsins.
„Miðað við hvernig umræðan er þá er ég ekki bjartýnn á að Landsnet muni skipta um skoðun. Landsnet hefur verið mjög ákveðið með að fara sína leið, allt frá upphafi, og hefur aldrei hlustað á sjónarmið hlutaðeigandi sveitarfélaga. Að því leytinu kemur mér ekkert á óvart ef Landsnet hlusti ekki heldur á ábendingar vísindamanna,“ segir Gunnar Axel.
„Þetta kjarnar málið. Það er ekkert hlustað“