Um er að ræða eina yfirgripsmestu sýningu RAX en hann hefur sett upp sambærilegar sýningar síðustu ár, bæði hér á landi og í München, og hafa viðtökurnar verið frábærar. Nú hefur sýningin verið opnuð í Deichtorhallen í Hamborg, einu virtasta listasafni Þýskalands.
„Þetta er svona sýnishorn af því sem ég hef verið að gera síðustu ár, svona brot af hinu og þessu, íslensku jöklunum, Grænlandi, Síberíu og í rauninni bara sýnishorn af norðurslóðunum,“ segir RAX í samtali við Vísi.
„Svolítið eins og að mála málverk á 17. öld“
Sýningin samanstendur af yfir 120 einstökum ljósmyndum RAX sem veita persónulega innsýn inn í hans mikilvæga ævistarf. Síðustu fjörutíu ár hefur hann myndað fólk, dýr og landslag afskekktustu svæða norðurslóða. Þannig hefur hann fengið að kynnast því af eigin raun hvaða áhrif loftslagsbreytingar hafa haft á bæði náttúruna sjálfa og íbúa svæðanna.
„Þetta er svolítið eins og að mála málverk á 17. öld. Þá var engin myndavél til, þannig við hefðum aldrei vitað hvernig lífið var á þeim tíma ef þessi málverk væru ekki til. Það er það sama með norðurslóðir, það er svo kalt þar og það er dýrt að fara, þannig að það fer enginn þangað. Þannig að þessar myndir sýna frosin augnablik í sögunni sem aldrei koma aftur.“
Stoltastur af því að myndirnar hreyfi við fólki
Formleg opnun var í gærkvöldi og stendur sýningin yfir til 18. júní næstkomandi. Samhliða sýningunni gefur RAX út ljósmyndabók en í henni er meðal annars að finna fyrstu myndir RAX sem hann tók aðeins 10 ára gamall.
RAX segist ekki eiga sér neitt uppáhalds verk á sýningunni, enda ómögulegt að gera upp á milli barnanna sinna eins og hann orðar það sjálfur. „Öll verkin mynda saman eina heild og það er það sem talar til fólks.“
Hann segist vera stoltastur af því að verk hans opni augu fólks. Hann verður oftar en ekki var við það að sýningargestir verði slegnir yfir þróuninni sem blasir við þeim á myndunum.
Ég fæ stundum að heyra að fólki finnist þetta fallegt og ég hef þá svarað því: „Ef þetta er fallegt, viltu þá að það hverfi?“. Það er svona pælingin.
„Ég er stoltur að sjá hvað sýningin skilur eftir hjá fólki. Þá finnur maður að það sem maður er að reyna að segja er að skila sér. Stundum finnst manni svolítið eins og maður sé að tala út í tómið og allir séu hættir að hlusta. Þannig ég er ánægður að sjá hvað fólk tekur sýningunni vel,“ segir RAX að lokum.
RAX hefur sagt sögurnar á bak við margar af myndunum á sýningunni í þáttunum RAX Augnablik hér á Vísi og á Stöð 2+. Hægt er að horfa á alla þættina hér.