Þegar um tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum höfðu Valskonur eins marks forystu í stöðunni 10-9. Eyjakonur stilltu upp í sókn, en Elín Rósa Magnúsdóttir stal boltanum, kom honum á Theu sem fór í gegn og skoraði.
Marta Wawrzynkowska stóð í marki Eyjakvenna og hún sló í andlit Theu er hún freistaði þess að verja skotið. Að öllum líkindum óviljaverk og þá má einnig benda á að Thea var vissulega komin langt inn í vítateig.
Dómarar leiksins, þeir Svavar Ólafur Pétursson og Sigurður Hjörtur Þrastarson, fóru í VAR-skjáinn góða og eftir heldur stutta skoðun var ákvörðunin tekin. Rautt spjald á Mörtu og Eyjakonur þurfa því að reiða sig af án síns aðalmarkmanns það sem eftir lifir leiks. Atvikið má sjá hér fyrir neðan.
Risastór og umdeild ákvörðun hjá dómurunum. ÍBV missir markmanninn út af með rautt fyrir þetta. Er þetta réttur dómur? pic.twitter.com/zMq5RkODca
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) March 18, 2023
Þegar þetta er ritað er hálfleikur í bikarúrslitaleik ÍBV og Vals og staðan er 14-13, Valskonum í vil. Eyjakonur eru því ekki af baki dottnar þó markvörður þeirra hafi verið sendur í snemmbúna sturtu.