Samstarf

Meistaradeild Líflands í hestaíþróttum hefur sjaldan verið glæsilegri

Meistaradeild Líflands
Úrslit í fimmgangi í Meistaradeild Líflands.
Úrslit í fimmgangi í Meistaradeild Líflands.

Meistaradeild Líflands í hestaíþróttum er hápunktur hestamennskunnar á þessum árstíma og má svo sannarlega segja að hún hafi sjaldan verið glæsilegri. Ótrúlega flott tilþrif hafa sést á hverju keppniskvöldi og stemningin verið sérstaklega góð meðal áhorfenda, keppenda og allra þeirra sem koma að keppninni.

Keppninni er streymt beint á streymisveitu Alendis svo það eru ekki bara þeir sem mæta í HorseDay höllina á Ingólfshvoli sem njóta góðs af heldur eru það hestaaðdáendur um allan heim sem bíða í eftirvæntingu eftir hverri keppni og fylgjast með Meistaradeildinni í beinni útsendingu og allt það aukaefni sem hægt er að nálgast á Alendis.

Klippa: Sigurvegarar fimmgangs 2023 - Sara Sigurbjörnsdóttir og Flóki frá Oddhóli.

Þriðja keppniskvöldi Meistaradeildar Líflands var 3. mars síðastliðinn og keppt var í fimmgangi. Margir sterkir hestar voru skráðir til leiks ásamt mörgum sem ekki hafa mætt í Meistaradeildina áður. Það var ljóst að ekki er bara vor í lofti heldur voru hestarnir mættir til leiks í frábæru standi og gáfu ekkert eftir þó stutt sé liðið á tímabilið.

Teitur Árnason og Flauta frá Flugumýri sýndu okkur frábært skeið.

Þorgeir Ólafsson og Goðasteinn frá Haukagili mættu fyrstir í braut með frábæra sýningu og settu línuna fyrir kvöldið og leiddu lengi vel. Uppboðsknapi kvöldsins, Ragnar Stefánsson á Mánadísi frá Litla-Dal, átti flotta sýningu og voru lengi vel meðal efstu knapa. Mikil vonbrigði þóttu þegar sigurvegararnir frá því í fyrra, Árni Björn Pálsson og Katla frá Hemlu II, fipuðust á seinni skeiðspretti eftir annars frábæra sýningu og ljóst að þau voru ekki að fara skipa sér í sess meðal efstu hesta.

Íslandsmeistararnir frá því í fyrra, Sara Sigurbjörnsdóttir og Flóki frá Oddhóli, áttu virkilega flotta sýningu og stóðu efst að lokinni forkeppni. Í öðru sæti inn í úrslit voru Ásmundur Ernir Snorrason og Ás frá Strandarhöfði og í því þriðja voru Viðar Ingólfsson og Eldur frá Mið-Fossum. Jöfn í fjórða voru þrír knapar; Þorgeir Ólafsson og Goðasteinn frá Haukagili, Teitur Árnason og Nóta frá Flugumýri II ásamt Glódísi Rún Sigurðardóttur og Sölku frá Efri-Brú.

Uppboðsknapi fimmgangs var Ragnar Stefánsson á Mánadísi frá Litla-Dal. Þau áttu flotta sýningu og voru lengi vel meðal efstu knapa.

Keppni í A úrslitum var gríðarlega jöfn og spennandi og ekki skemmdi fyrir þétt setin stúka af áhorfendum og stemningin var vægast sagt frábær. Eftir töltið leiddu Viðar og Eldur nokkuð örugglega með 8.67 í einkunn. En eftir fetið voru það Glódís og Salka sem tóku forystuna sem þau héldu fram að skeiðinu. Eftir frábæra spretti á skeiði voru það Sara og Flóki sem stóðu efst og sigruðu fimmgang Meistaradeildar Líflands 2023. Í öðru sæti voru þau Glódís og Salka, í þriðja Þorgeir og Goðasteinn, í fjórða Ásmundur og Ás, Teitur og Flauta í því fimmta og loks Viðar og Eldur í því sjötta.

Sara Sigurbjörnsdóttir og Flóki frá Oddhóli sigruðu fimmganginn.

Liðakeppnin er stór liður af keppninni en á hverju kvöldi eru það þrír liðsmenn sem keppa og safna stigum fyrir sitt lið. ​Það var lið Auðsholtshjáleigu sem hlaut liðaplattann í fimmganginum með 54 stig en liðið var með tvo knapa í A-úrslitum, sigurvegarann Söru Sigurbjörnsdóttur og Ásmund Erni Snorrason sem hafnaði í 4. sæti. Þórdís Erla Gunnarsdóttir keppti einnig fyrir þeirra hönd og hafnaði í 17. sæti á Viljari frá Auðsholtshjáleigu. Þau eru nú í öðru sæti í liðakeppninni en lið Ganghesta/Margrétarhofs leiða með 150.5 stig. Í 3. sæti er Hestvit/Árbakki með 117 stig.

Lið Auðsholtshjáleigu/Horseexport sigruðu liðakeppni kvöldsins. Fv. Ásmundur Ernir Snorrason, Sara Sigurbjörnsdóttir, Gunnar Arnarson eigandi liðsins, Þórdís Erla Gunnarsdóttir liðsstjóri og Signý Sól Snorradóttir.

Efst í einstaklingskeppninni er enn þá Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir með 24 stig. Sara Sigurbjörnsdóttir skaust upp í 2. sæti og er nú með 20 stig eftir kvöldið og Glódís í því þriðja með 14 stig. Það eru enn þá mörg stig í pottinum þar sem einungis þrjár keppnir af átta eru yfirstaðnar og enn þá margir sem eiga kost á að sigra keppnina í ár.

Næsta mót er á fimmtudaginn 23. mars þegar keppt verður í Gæðingalist. Gæðingalist er heldur frábrugðin venjulegum hringvallagreinum en sýna þarf vel þjálfaðan gæðing á listrænan hátt. Knapi fléttar saman gangtegundum og æfingum og sýnir í einni heild, jafnvægi, þjálni, kraft og fimi hestsins. Hesturinn þarf að vera rólegur en einbeittur, sýna framhugsun og vera taktfastur, frjáls og sveigjanlegur. Auk þess á að sýna kraft, söfnun og yfirferð. Þar er ætlast til að hesturinn sýni góðan burð allan tímann og framkvæmi krefjandi æfingar. Form skal vera rétt, hreyfingar rúmar og háar og skrefin löng. Sýningin skal geisla af krafti, góðri spyrnu, bakið vera burðargott og burður í afturhluta góður. Hesturinn gangi vel upp í herðar, sé léttur, frjáls að framan og sjálfberandi.

Teitur Árnason og Taktur frá Vakurstöðum, sigurvegarar gæðingalistar 2022.

Í fyrra voru það Teitur Árnason og Taktur frá Vakurstöðum sem sigruðu eftirminnilega með kraftmikilli sýningu. Við megum búast við hörkuspennandi keppni í ár þar sem ávallt fleiri eru að leggja mikið á sig og ljóst að flestir eru að fara stefna á sigur. Einnig verður áhugavert að sjá hvort að við munum sjá einhverja Villiketti eða Uppboðsknapa mæta til leiks í þessari krefjandi keppnisgrein.

Það gleður okkur að tilkynna að nú ætlar Kaffi Krús á Selfossi að bjóða áhorfendum frítt inn í HorseDay höllina á Ingólfshvoli. Veitingarnar verða á sínum stað, veglegri en áður, og því tilvalið að mæta tímanlega og gæða sér á veitingum bæði fyrir keppni og á meðan henni stendur. Þau ykkar sem ekki komast geta tryggt sér áskrift og horft á Alendis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×