Atvinnulíf

Fengu meðal annars styrk upp á 2,1 milljón evra

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Ósvaldur Knudsen, framkvæmdastjóri Laki Power, segir það vissulega nokkra vinnu að sækja um styrki en sú vinna nýtist oft mjög vel fyrir fyrirtækið almennt. Þá ráðleggur hann nýsköpunarfyrirtækjum að byrja frekar á því að sækja um smærri styrki og jafnvel að fá aðila til að halda utan um skýrslugerð og annað þegar styrkir eru orðnir stærri eða meiri í umfangi.
Ósvaldur Knudsen, framkvæmdastjóri Laki Power, segir það vissulega nokkra vinnu að sækja um styrki en sú vinna nýtist oft mjög vel fyrir fyrirtækið almennt. Þá ráðleggur hann nýsköpunarfyrirtækjum að byrja frekar á því að sækja um smærri styrki og jafnvel að fá aðila til að halda utan um skýrslugerð og annað þegar styrkir eru orðnir stærri eða meiri í umfangi. Vísir/Vilhelm

„Lengi framan af voru starfsmennirnir einn til tveir eða allt þar til árið 2019, þá kom Brunnur fjárfestingasjóður inn með fjármögnun og teymið varð þriggja til fjögurra manna. En frá upphafi höfum við nýtt okkur styrkjarumhverfið, allt frá styrkjum fyrir markaðsmálin yfir í styrk í gegnum einkaleyfisferlið,“ segir Ósvaldur Knudsen framkvæmdastjóri Laki Power.

„Árið 2021 fengum við síðan styrk frá Evrópusambandinu upp á 2,1 milljón evra sem hefur gert okkur kleift að prófa enn fleiri pilotverkefni en áður,“ bætir Ósvaldur við og vísar þar til styrktarverkefnis sem gerði það að verkum að Laki Power starfar nú með aðilum á Íslandi, í Noregi, Tyrklandi, Grikklandi og Kanada að því að prófa tæknina enn frekar.

Brátt mun Argentína bætast við.

Grænir styrkir er yfirskrift styrkjamóts sem haldið verður á Grand hótel í dag. Á mótinu verður kynning á styrkjum sem bjóðast á sviði umhverfis-, loftlags- og orkumála og hefst dagskráin klukkan 09.00. Í gær og í dag ræðir Atvinnulífið við nýsköpunarfyrirtæki sem hlotið hafa slíka styrki.

Eftirlitskerfi á háspennulínum

Í dag starfa átta manns hjá Laki Power, en fyrirtækið skilgreinist sem hátæknifyrirtæki sem hefur þróað eftirlitskerfi sem komið er fyrir á háspennulínum til þess að minnka línurnar á tjóni.

„Tjón á háspennulínum getur hlotist af ýmsum ástæðum. Til dæmis ísingu, miklum vindum eða skógareldum.“

Fyrirtækið var stofnað árið 2015 af Óskari Valtýssyni, sem þá starfaði hjá Landsvirkjun/Landsnet.

„Það er ekki hægt að stinga neinu í samband við háspennulínu, en Óskar fékk þá hugmynd að gott væri að finna lausn til þess að aflfæða búnað þannig að á háspennulínum gæti verið búnaður með myndavélum og mælitækjum til að fylgjast með ástandi línanna og fyrirbyggja tjón,“ segir Ósvaldur.

Búnaðurinn er í ásýnd eins og kassi sem hangir á háspennulínunni en þaðan fá viðskiptavinir síðan gögn og upplýsingar um ástand línunnar og/eða ef eitthvað kemur fyrir.

Fyrirtækið hlaut nýsköpunarverðlaun Samorku árið 2021 og segir Ósvaldur að fyrirtækið ætli sér að verða leiðandi á heimsvísu í eftirlitskerfum fyrir háspennulínur.

„Okkar sérstaða er orkunámstækni sem gerir okkur kleift að ná >100W afköstum úr háspennulínu en við erum með einkaleyfi fyrir þessari tækni í Bandaríkjunum, Evrópu og Kína, en samstarfsaðilar okkar eru meðal stærstu flutningaaðila í heimi.”

Búnaðurinn sem Laki Power hefur þróað felur í sér vindmælingar, myndavélar og fleira sem senda gögn til viðskiptavina og spá fyrir um hættur sem geta leitt til rafmagnsleysis. Þessar hættur eru til dæmis ísing á línum, skógareldar, vindar eða seltuveður.Vísir/Vilhelm

Grænir styrkir og góð ráð

Ósvaldur segir að strax í upphafi hafi verið sótt um styrk til Tækniþróunarsjóðs Rannís til þess að smíða prótótýpu og prófa tæknina.

„Vara eins og okkar kallar á langt þróunarferli og þessir styrkir hafa því nýst okkur mjög vel. Enda oft erfitt fyrir fjárfesta að koma inn með fjármagn á þessum upphafsmetrum þegar að svo mörgum spurningum er enn ósvarað. Til dæmis um það hvort tæknin virki eða hvort það sé eftirspurn eftir vöru sem þessari.“

Ósvaldur segir skiljanlegt að styrkjarumhverfið kalli á nokkra vinnu og eftirfylgni enda séu styrkir oft opinbert fé sem eðlilegt er að tryggja að sé nýtt á þann hátt sem ætlað er.

„Það er vissulega ákveðin æfing og agi að fara í gegnum umsóknarferli um styrki. Maður þarf að vinna alls kyns plön og áætlanir og skila inn. Að mínu mati er þetta þó vinna sem nýtist vel því það að þurfa að setja niður á blað ýmsa hluti sem maður er kannski að hugsa, er oft vinna sem fyrirtækið hefði í raun á einhverjum tímapunkti þurft að ráðast í hvort eð er.“

Þá segir Ósvaldur sína reynslu vera þá að styrkjarumhverfið sýni nýsköpunarfyrirtækjum mikinn skilning.

„Í nýsköpun er ekkert meitlað í stein. Það er að vissu leyti eðli nýsköpunar að ýmiss plön breytast og eitt af því sem mér hefur fundist mjög jákvætt í þessu styrkjarumhverfi er að á þessu er skilningur.“

Þá segir hann styrki oft góðan hvata fyrir fjárfesta.

„Þegar fyrirtæki hafa hlotið styrki getur það virkað mjög jákvætt á fjárfesta. Því styrkir eru staðfesting á því að þér hefur tekist að kynna hugmyndina á mjög sannfærandi hátt innan styrkjarumhverfisins, sem aftur getur auðveldað fjárfestum að taka sína ákvörðun og virkað sem góður plús.“

Aðspurður um góð ráð segir Ósvaldur.

Ég myndi alltaf mæla með því að byrja á því að sækja um smærri styrki frekar en stærri. 

Þegar styrkir eru orðnir stærri og meiri í umfangi, myndi ég persónulega mæla með því að fá aðila til að aðstoða fyrirtækið við skýrslugerð og utanumhald. 

Því í sumum tilfellum getur það einfaldlega verið slæmt í nýsköpun að vera að eyða tíma í skýrslugerð frekar en að vinna verkefni sem eru beintengd þeim verkefnum sem nýsköpunin er að vinna að því að leysa.“


Tengdar fréttir

Vantar ekki fleiri styrki eða meiri peninga heldur einfalda hvata

„Það sem er svo mikilvægt er að fólk fari að átta sig á er að hringrásarhagkerfið er nýsköpun í raunheimum þar sem tíminn er naumur og við þurfum að fá sem flesta til að hlaupa hratt. Það vantar ekki fleiri styrki eða meiri peninga. Það er nóg til af þeim og nóg til af hugmyndum. En það þarf leiðandi aðila til að eiga verkefnin og því þarf að búa til einfalda og almenna hvata svo að sem flestir geti hlaupið af stað,“ segir Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir.

Hjón í nýsköpun: Hugmyndin kom óvart í feðraorlofi í Barcelona

„Fyrstu mánuðina okkar í Barcelona var ég í feðraorlofi og að læra spænsku eftir að hafa flutt fra Danmörku. Ég hafði útbúið gagnagrunn í Excel um fýsileika vindmylluverkefna og velti fyrir mér hvort ég gæti selt þetta sem vöru en áttaði mig þó á því að ég myndi fljótt gera mig atvinnulausan sem ráðgjafi ef ég seldi grunninn frá mér,“ segir Edvald Edvaldsson um aðdragandann að því að nýsköpunarfyrirtækið Youwind Renewables varð til.

Vélrænt nám mun hafa áhrif á öll fyrirtæki

Vélrænt nám mun hafa áhrif á öll fyrirtæki, stór sem smá og það er ekki eftir neinu að bíða með að nýta sér þessa tækni. Sem dæmi má nefna hvernig vélrænt nám getur dregið úr brottfalli viðskiptavina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×