Þingflokksformenn Pírata, Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólksins lögðu í gær fram vantrausttillögu á Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra þar sem hann hafi komið í veg fyrir að Alþingi fengi nauðsynleg gögn til lagasetningar.
„Ekki neitt skemmtiefni“
Katrínu Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í viðtali við Heimi Má Pétursson fréttamann seinnipartinn í gær að tillagan varpaði skugga á stjórnarsamstarfið.
„Jú að sjálfsögðu er það ekki neitt skemmtiefni þegar vantrauststillaga er lögð fram og ég vænti þess að hún verði tekin fyrir á þinginu, jafnvel strax á morgun," sagði Katrín.
Hún hefði ekki séð tillöguna sjálfa en staða Jóns væri óbreytt í ríkisstjórninni.
„Nú liggur bara þessi tillaga fyrir. Við höfum ekki einu sinni náð að ræða hana í mínum þingflokki og ég hef ekki einu sinni séð tillöguna. En staða dómsmálaráðherra er óbreytt í ríkisstjórninni.“
Átján mánuðir liðnir
Þegar tilkynnt var um að Jón yrði dómsmálaráðherra var tekið fram að hann myndi aðeins gegna því embætti í átján mánuði. Eftir það tæki Guðrún Hafsteinsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins við af honum.
Nú eru þessir átján mánuðir liðnir, stendur það ennþá til?
„Ég veit ekki annað og vænti þess að formaður Sjálfstæðisflokksins geti betur svarað því en ég.“
Fréttin var uppfærð klukkan 07:50.