Handbolti

Bjarki og félagar flugu inn í átta liða úrslit

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bjarki Már Elísson á flugi með Veszprém.
Bjarki Már Elísson á flugi með Veszprém. Veszprém

Bjarki Már Elísson og félagar hans í ungverska stórliðinu Telekom Veszprém eru komnir í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í handbolta eftir góðan fimm marka sigur gegn Pick Szeged í dag, 38-33.

Bjarki og félagar unnu 13 marka sigur í fyrri leik liðanna og því var sigur þeirra í rimmunni í raun aldrei í hættu í dag.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik, en heimamenn í Veszprém stungu af í síðari hálfleik og unnu að lokum nokkuð öruggan fimm marka sigur, 38-33, og einvígið samanlagt 74-56. Bjarki Már komst ekki á blað fyrir liðið.

Veszprém er því á leið í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar þar sem liðið mætir stórliðinu Kielce, en Selfyssingurinn Haukur Þrastarson er samningsbundinn pólska liðinu. Haaukur sleit hins vegar krossband stuttu fyrir jól og verður því ekki með Kielce gegn Veszprém.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×