Á vef Keflavíkurflugvallar má sjá að fjölda flugferða Icelandair, Play og Wizz Air til og frá landinu hefur verið seinkað í dag. Þær seinkanir ná allt frá nokkrum mínútum upp undir tvo klukkutíma.
„Vegna veðurs verða einhverjar seinkanir í dag frá Evrópu seinni partinn og það mun hafa keðjuverkandi áhrif á flugferðir til Bandaríkjanna í kvöld og svo í fyrramálið frá Bandaríkjunum,“ sagði Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair í samtali við fréttastofu.
Þá segir hún að það megi búast við fleiri seinkunum í fyrramálið.
Aðspurð hvort einhverjum flugferðum verði aflýst sagði Ásdís „Ekki eins og staðan er núna, við gerum ráð fyrir að það verði seinkanir. Svo sjáum við bara hvernig veðrið þróast.“