Inter Milan vann mikilvægan 2-0 útisigur er liðið heimsótti Benfica í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld.
Nicolo Barella kom gestunum frá Ítalíu í forystu með marki á 51. mínútu eftir stoðsendingu frá Alessandro Bastoni áður en varamaðurinn Romelu Lukaku tryggði liðinu 2-0 sigur með marki úr vítaspyrnu þegar um átta mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.
Heimamenn í Benfica fengu kjörið tækifæri til að koma sér aftur inn í einvígið í uppbótartíma, en allt kom fyrir ekki og niðurstaðan varð 2-0 sigur Inter.
Inter er því með þægilega forystu fyrir síðari leik liðanna sem fram fer á miðvikudaginn eftir rúma viku.