Að sögn fulltrúa Slökkviliðsins valt farmur flutningabíls á Vesturlandsvegi um hálf sex leytið með þeim afleiðingum að mörg þúsund lítrar af hvítri málningu láku út á veginn. Bíllinn sjálfur hafi ekki oltið, aðeins farmurinn.

Þá séu fulltrúar Heilbrigðiseftirlitsins, Vegagerðarinnar, tryggingafélaga og efnaeyðingar Terra komnir á staðinn til að hreinsa upp málninguna.
Tveir lokunarbílar eru komnir frá Vegagerðinni til að loka veginum í kjölfarið verði reynt að hreinsa þetta eins vel og hægt er.
„Það er verið að blanda sandi við málninguna núna og tína upp körin upp á bíl. Þetta er smám saman að vinnast,“ sagði fulltrúi Slökkviliðsins í samtali við fréttastofu.
Aðspurður hvort aðgerðin tæki langan tíma sagði hann „Þetta klárast fyrir miðnætti.“
Hér fyrir neðan má sjá myndband af vettvangi. Þar má sjá að auk slökkviliðsins eru sjúkrabílar og lögreglubílar á staðnum.