Fótbolti

Beruðu bossana til að trufla vítaskyttu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stuðningsmenn Angers reyndu að trufla vítaskyttu Clermont.
Stuðningsmenn Angers reyndu að trufla vítaskyttu Clermont.

Stuðningsmenn franska úrvalsdeildarliðsins Angers gripu til óhefðbundins ráðs til að trufla vítaskyttu andstæðings.

Angers sótti Clermont heim í frönsku úrvalsdeildinni í gær. Gestirnir náðu forystunni með marki Adriens Hunou á 28. mínútu. Adam var ekki lengi í paradís því fimm mínútum seinna fékk Clermont vítaspyrnu sem Grejohn Kyei skoraði úr.

Sex mínútum fyrir hálfleik fékk Clermont annað víti. Að þessu sinni steig Muhammed Chan fram. Hann þurfti ekki bara að glíma við markvörð Angers, Paul Bernardoni, heldur einnig stuðningsmenn Angers fyrir aftan markið.

Þeir leystu nefnilega niður um sig og beruðu bossana framan í Chan. Hann lét þessa óvenjulegu sjón ekki á sig fá og skoraði úr vítinu. Fleiri urðu mörkin ekki og Clermont vann, 2-1, þrátt fyrir að hafa misst tvo leikmenn af velli með rautt spjald í leiknum.

Angers er langneðst í frönsku úrvalsdeildinni, með aðeins fjórtán stig, sautján stigum frá öruggu sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×