Haukar unnu Val á Hlíðarenda á sunnudaginn, 22-24, og með sigri á Ásvöllum í kvöld tryggja Hafnfirðingar sér sæti í undanúrslitum Olís-deildarinnar.
Ef það tekst verða Haukar fyrsta liðið sem endar í 8. sæti til að slá deildarmeistarana úr leik í sögu úrslitakeppninnar. Deildarmeistararnir hafa hingað til aldrei fallið út í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar.
Aðeins einu sinni hefur það gerst að deildarmeistarar hafa fallið út í 1. umferð úrslitakeppninnar. Það var 2012 þegar HK vann Hauka, 3-0, í undanúrslitum. Þá voru aðeins átta lið í efstu deild og bara fjögur lið í úrslitakeppninni.
Haukar hljóta að hugsa sér gott til glóðarinnar gegn Val í kvöld enda eru margir leikmenn fjarri góðu gamni hjá Íslandsmeisturunum vegna meiðsla.
Valur vann fyrsta leikinn gegn Haukum í vetur en hefur tapað síðustu tveimur leikjum gegn frændliði sínu.
Leikur Hauka og Vals hefst klukkan 19:30 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 5.