Valsmenn mættu með laskað lið til leiks og vissu að þeir yrðu að vinna til að halda í vonina um að verja Íslandsmeistaratitilinn en Haukar gerðu sér lítið fyrir og unnu fyrsta leik liðanna að Hlíðarenda. Það kom snemma í ljós að Valsmenn væru ekki að fara vinna leik kvöldsins en liðið skoraði aðeins fjögur mörk í fyrri hálfleik.
„Við erum búnir að standa í ströngu, vinna titil og spila í Evrópukeppni. Vildum ekki enda þetta svona, er ömurlegur endir á tímabilinu. Það er kannski fegurðin við sportið, þetta getur alltaf farið svona líka.“
„Ég get bara talað fyrir sjálfan mig. Maður á ekkert á ekkert endalausa orku og það má vel vera að við séum bara bensínlausir. Ég held við séum bensínlausir andlega heldur en eitthvað annað. Ef sérð inn í klefa til okkar núna sérðu mikil vonbrigði, aðallega sárt fyrir gaura sem eru að fara,“ sagði klökkur Björgvin Páll aðspurður hvort þeir hefðu verið andlega og líkamlega þreyttir fyrir viðureignina.
„Svo er ég settur í viðtal og ræð ekki einu sinni við það,“ bætti Björgvin við eftir að hafa tekið sér góða sekúndu til að þerra vot augun.
„Það eru leikmenn inn í klefa, þeir vilja ekki enda svona. Eru að fara frá félaginu, að hætta. Þetta er ömurlegt.“
„Svo er líka bara að þakka fólkinu sem mætti í dag og kláraði leikinn, þetta er fólkið okkar. Við sem erum eftir í liðinu mætum í undirbúningstímabilið á morgun og erum klárir í næstu verkefni. Þetta er bara félaginu til skammar í dag en heilt yfir tímabilið og árið æðislegt.“