Einar fer yfir veðurspána fyrir síðustu daga apríl á vef sínum Blika.is. Hann segir meðalspána sýna mjög eindregna mynd. Hæðarsvæðið í suðaustri sé á undanhaldi og vægi þess flyst til vesturs og yfir Grænland.
„Við það skiptir um vindátt í háloftunum. Í stað hagfelldrar S- og SA áttar með mildu veðri frá því um mánaðarmót, tekur nú við NV-átt í 500 hPa. Þetta er mikilvæg breyting og sést vel á fyrra kortinu,“ segir Einar.
Hann segir þrýstifrávik í tíu daga spánni kunnugleg fyrir árstímann. „Almennt séð hár þrýstingur á okkar slóðum og með háþrýstimiðju yfir Grænlandi. En þó Grænlandshæðin sé oft áberandi á vorin, er henn nú spáð stærri og víðáttumeiri, en alla jafna.“

Fremur svalt verður í veðri en eiginleg vorhret ólíkleg. „Næturfrost regla, frekar en hitt, einkum um norðan- og norðaustantil og þar hæg framþróun vorgróandans,“ segir Einar.
„Eins dregur úr leysingu á hálendinu frá því sem verið hefur. Í þurrara lagi verður sunnan- og vestantil, en kemur kannski ekki svo að sök, því nokkuð hefur rignt síðustu vikurnar. Þar hins vegar margir sólardagar.“
Maí þurrastur allra mánaða
Hvað varðar framhaldið segir Einar á vef sínum Blika.is að safnspá sýni þrjá möguleika fyrir miðvikudaginn 3. maí.
Allir geri þar ráð fyrir hæðarsvæði við landið og að mestu háþrýstisveigju í vindasvið háloftanna. Spáin gefi ekki tilefni til breytinga.
„Staðviðri eru tíð í maí og veðurlag sjaldan þrálátara. Höfum hugfast að meðalloftþrýstingur er að jafnaði hæstur í maí hér á landi og hann er einnig þurrastur allra mánuða. Spárnar fram í maí ríma ágætlega við þann veruleika!“