Fótbolti

Telur ómögulegt að Liverpool nái Meistaradeildarsæti

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jürgen Klopp í leik dagsins.
Jürgen Klopp í leik dagsins. Andrew Powell/Liverpool FC via Getty Images

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var eðlilega kátur eftir 4-3 sigur sinna manna gegn Tottenham í ótrúlegum leik í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Liverpool byrjaði leikinn af miklum krafti og liðið var komið í 2-0 forystu strax á fimmtu mínútu leiksins. Tíu mínútum síðar skoraði Mohamed Salah svo þriðja mark liðsins og flestir töldu að möguleikar Tottenham á að ná einhverju úr þessum leik væru úr sögunni.

Gestunum í Tottenham tókst þó að minnka muninn fyrir hálfleikshléið og þegar komið var í uppbótartíma jafnaði Richarlison metin fyrir Tottenham eftir að Heung-Min Son hafði skorað annað mark liðsins stuttu áður. Diogo Jota reyndist þó hetja Liverpool þegar hann nýtti sér mistök í vörn Tottenham og tryggði Liverpool ótrúlegan sigur.

Liverpool er nú sjö stigum á eftir Manchester United sem situr í fjórða sæti þegar liðið á fimm leiki eftir. Jürgen Klopp og lærisveinar hans halda því enn í veika von um sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð, en Klopp segir þó að það sé ómögulegt.

„Auðvitað ekki. Ef United og Newcastle vinna alla sína leiki þá er ekki séns fyrir okkur. Ef þau tvö fara að tapa þá verðum við kannski nálægt því. En þangað til verðum við að vinna fótboltaleiki til að tryggja okkur sæti í Evrópukeppni yfir höfuð.“

„Brighton spilaði einn besta leik sem ég hef séð um helgina,“ bætti Klopp við, en Brighton er fjórum stigum á eftir Liverpool og á tvo leiki til góða.

„Þeir eru að elta okkur og eiga tvo leiki inna. Aston Villa fer vaxandi. Ef við getum haldið þessum liðum fyrir neðan okkur þá er það ákveðinn árangur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×