Þetta segir Gianni Infantino, forseti FIFA, og lýsir því sem „kinnhesti“ í garð leikmanna og kvenna um allan heim hve lág tilboð hafi borist frá Bretlandi, Spáni, Ítalíu, Þýskalandi og Frakklandi.
Heimsmeistaramótið fer fram í Ástralíu og Nýja-Sjálandi frá 20. júlí til 20. ágúst og í fyrsta sinn eru þátttökuþjóðirnar 32 talsins. Vegna staðsetningar mótsins fara leikirnir ekki fram á besta sjónvarpstíma í Evrópu en Infantino segir það enga afsökun.

„Svo að það sé á hreinu þá er það okkar siðferðislega og lagalega skylda að selja ekki heimsmeistaramót kvenna á undirverði,“ sagði Infantino á ráðstefnu World Trade Organization í Genf.
„Þess vegna er það þannig að ef að tilboðin sem við fáum halda áfram að vera ósanngjörn þá neyðumst við til þess að sleppa því að sýna HM kvenna í þessum fimm stóru Evrópuþjóðum,“ sagði Infantino.
Hann sagði tilboðin í sýningarréttinn hafa verið á milli 1-10 milljónir Bandaríkjadala en að til samanburðar hefði sýningarréttur frá HM karla í Katar verið seldur á 100-200 milljónir dala.
Samkvæmt skýrslu FIFA eftir síðasta heimsmeistaramót kvenna, í Frakklandi 2019, þá horfði 1,12 milljarður manna á mótið.